Afmæliskveðja forseta Íslands Guðna Th. Jóhannessonar

 Guðni ThSmaller 25.08 12

Kveðja

forseta Íslands

Guðna Th. Jóhannessonar

til

Kvenfélagasambands Íslands

Á 90 ára afmæli Kvenfélagasambands Íslands færi ég því heillaóskir. Á stofndegi sambandsins, 1. febrúar 1930, var margt með öðrum brag í samfélaginu en um okkar daga. Mjög hallaði á konur á flestum sviðum. Vissulega var tekið að rofa til eftir óralanga undirokun. Konur höfðu öðlast kosningarétt og æðri menntastofnanir voru þeim ekki lengur með öllu lokaðar. Þeir sigrar unnust í krafti fjöldans og þeirra kvenna sem stóðu í fylkingarbrjósti þótt hliðhollir karlar hafi að sjálfsögðu einnig haft sitt að segja; þeir voru jú áfram í öllum valdastöðum.

 

Kvenfélögin boðuðu ekki byltingu. Konur innan vébanda Kvenfélagasambandsins sinntu mannúðarmálum, fræðslu og menningarstarfi. Þær vildu hjálpa konum að sinna hefðbundnum húsmóðurstörfum eftir bestu getu. Ekki varð hjá því komist að róttækari konum þætti ekki nóg að láta þar við sitja. En tíðarandi breyttist ekki á svipstundu, tregðulögmálið er lífseigt. Erla Hulda Halldórsdóttir sagnfræðingur hefur sagt að kenna megi tímabilið þegar Kvenfélagasambandið var stofnað við „húsmæðrahugmyndafræði“ og mannfræðingurinn Sigríður Dúna Kristmundsdóttir komst eitt sinn svo að orði að „gömlu  menningarbundnu hugmyndirnar um konur sem umhyggjusamar og siðsamar mæður og húsfreyjur“ hafi verið svo rótgrónar að „meira að segja baráttukonunum sjálfum datt ekki í hug að setja spurningarmerki við þær“.

Það var svo margt sem þótti óhugsandi fyrr á tíð. Lýðveldisárið 1944 fengu skólabörn í Reykjavík umfjöllunarefni sem taldist við hæfi á þeim merku tímamótum. Drengjum var falið að skrifa ritgerð sem hæfist á orðunum ,,Ef ég væri forseti ...“. Aftur á móti var stúlkum uppálagt að hefja sín skrif með innganginum „Ef ég væri forsetafrú …“.

Blessunarlega þætti þannig forskrift skrýtin í dag, reyndar óboðleg og ekki í samræmi við sögulegar staðreyndir eins og okkur öllum er kunnugt. Sem fyrr urðu nauðsynlegar framfarir þó ekki af sjálfu sér og mótstöðu gætti áfram. Sigríður Th. Erlendsdóttir má teljast forystukona í sagnaritun íslenskra kvenna ásamt Önnu Sigurðardóttur. „Þeim fannst sér beinlínis misboðið við slík umskipti,“ skrifaði Sigríður um viðhorf margra karla þegar konur tóku að hasla sér völl í samfélaginu eftir seinna stríð, vinna utan heimilis, afla sér framhaldsmenntunar, ráða hag sínum sjálfar.

Hér höfðu tækninýjungar einnig sitt að segja. Hvers kyns heimilistæki léttu verkin. Nú tók minni tíma en áður að þvo þvotta, halda híbýlum hreinum, elda mat. Áfram var raunin sú að verk innan veggja heimilisins hvíldu frekar á herðum kvenna en karla. En var allt líf hinnar íslensku konu þá ómögulegt og erfitt, í óréttlátu og ósanngjörnu umhverfi? Um 1980 hélt ung kvenréttindakona og sagnfræðingur, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, út í heim að lesa kvennasögu, uppfull eldmóðs. „Mér fannst að í Rauðsokkahreyfingunni værum við of mikið að horfa á veikleikana og hvað það væri að mörgu leyti ömurlegt hlutskipti að vera kona,“ rifjaði hún síðar upp: „Ég kallaði þetta stundum eymdarkenningar. Ég varð uppfull af því hvernig væri hægt að leggja áherslu á hið jákvæða sem konur hafa fram að færa og styrkleikann í menningu og reynslu kvenna.“

Þetta hafa kvenfélagskonur gert í áranna rás. Þær hafa sinnt þörfu verki á ýmsum sviðum, oftar en ekki án þess að hátt fari. Nú um stundir er Kvenfélagasamband Íslands fjölmennasta kvennahreyfing landsins alls, með um 5.000 félaga í 17 héraðssamböndum og 154 kvenfélögum. Sambandið sinnir alþjóðasamstarfi á ýmsa vegu og lætur til sín taka í þjóðfélagsumræðu. Það stendur að ýmsum verkefnum sem til heilla horfa og má þar nefna merkt átak gegn matar- og fatasóun, sóun sem veldur umhverfisvá í velferðarríkjum okkar daga. Á Leiðbeiningastöð heimilanna, sem Kvenfélagasambandið stofnaði fyrir nær hálfri öld og er nú einnig á netinu, má finna ýmsar hagnýtar upplýsingar fyrir konur og karla.

Kvenfélagskonur sinna áfram líknar- og fræðslustörfum, safna fé til stuðnings góðum málefnum. Allt gerist þetta í sjálfboðavinnu en launin felast í félagsskapnum og augljósum árangri erfiðisins svo víða.

Ég ítreka góðar kveðjur til Kvenfélagasambands Íslands á merkum tímamótum. Félagskonur hafa haldið utan um og eflt þann samfélagsauð sem liggur í lífsreynslu kvenna í tímans rás. Ég met mikils þann heiður að vera í krafti míns embættis verndari sambandsins og óska því alls velfarnaðar í framtíðinni.

 

Kveðjan birtist fyrst í 1. tbl Húsfreyjunnar 2020. 

Kvenfélagasamband Íslands

Hallveigarstöðum  - Túngötu 14  - 101 Reykjavík
552 7430 
kvenfelag@kvenfelag.is

© 2017 - 2022 Kvenfélagasamband Íslands