Veikleikar í nútímasamfélagi - Norræna bréfið 2020

Veikleikar í nútímasamfélagi

– nýjar hættur eða gamlar áskoranir?

NORRÆNA BRÉFIÐ 2020 - FRÁ SVÍÞJÓÐ

Höfundur: Misse Wester prófessor við Háskólann í Lundi

Misse westersmall IIÞað liggur í augum uppi að samfélagið stendur frammi fyrir fleiri áskorunum og meiri hættum en nokkru sinni fyrr. Mikið af sameiginlegum sjóðum samfélagsins eru notaðir til að koma í veg fyrir eða draga úr ófyrirséðum atburðum og neikvæðum afleiðingum þeirra. Augljóslega eru þessir ferlar, áhættugreining og viðbragðsáætlun, grundvallaðir á tölfræðilegum útreikningum. Í fljótu bragði má álykta að þar sem stærsta váin liggur, þangað fer mesta aðstoðin/úrræðin. Það er þó ekkiraunin. Forgangsröðun áhættuþáttanna fer eftir forsendum og gildismati á þeim. Til dæmis hafa börn hærra verndargildi en aðrir hópar. Þetta getur einnig átt við hættur sem steðja að fámennum hópum samfélagins vegna hvers konar glæpastarfsemi. Það er lögð meiri áhersla á að koma í veg fyrir hættur af þeirra völdum en hættur sem hafa áhrif á stærri samfélagshópa. Hvernig ólíkir hópar upplifa mismunandi hættur og hvað eru ásættanlegar afleiðingar, hefur áhrif á forgangsröðun hjá valdhöfum hvað varðar fyrirbyggjandi aðgerðir og viðbrögð, óháð því hversu algeng viðkomandi hætta er. Sú staðreynd að við skynjum og forgangsröðum hættu á mismunandi vegu hefur einnig áhrif á hegðun okkar sem einstaklinga.

Ef við upplifum að eitthvað ógni heilsu okkar og vellíðan er raunhæft að gera ráð fyrir því að hver og einn bregðist við, til að draga úr þeirri ógn.

Það getur verið erfitt fyrir einstaklinga að draga úr líkindum þess að eitthvað gerist. Að geta dregið úr hækkun yfirborðs sjávar eða koma í veg fyrir skógarelda getur verið óraunhæft viðureignar fyrir einstaklinga. Aftur á móti er gert ráð fyrir að einstaklingar takist á við afleiðingar atburða sem valda samfélagslegum breytingum í meira mæli en áður. Árið 2018 gáfu sænsk yfirvöld út bæklinginn: Ef hættu- eða stríðsástand skapast sem var dreift á öll heimili landsins. Þar er að finna upplýsingar um nauðsynlegar forvarnir á heimilum ef til hættuástands kemur. Þar er til dæmis lýst hvaða samfélagsþjónusta fellur niður, hvernig á að meta hlutina, miðla upplýsingum og hvað þarf að vera til á heimilinu. Í bæklingnum var sagt að hvert heimili eigi að hafa viðbúnað sem dugir til þriggja sólarhringa en nýverið var þessum tilmælum breytt í sjö daga. Auðvitað tel ég að hver og einn einstaklingur beri ábyrgð og hafi skyldur við að draga úr eða koma í veg fyrir hættu og við berum sameiginlega ábyrgð gagnvart samferðarfólki okkar þegar hætta steðjar að.

Yfirgnæfandi meirihluti rannsókna, á hegðun fólks á hættustundum, sýnir að samkennd verður allsráðandi sem leiðir til þess að líkur verða hverfandi á að upplausn skapist og að farið sé ránshendi um varnarlaus svæði. Engu að síður finnst mér ákveðið ójafnvægi milli þess sem hver og einn getur gert sem einstaklingur og þeirrar ábyrgðar sem samfélagið væntir af þeim. Í dag einkennist þróun samfélagsins af gegnumflæðiskerfi (just in time) hvað varðar afhendingu lyfja og annarra vara, þar sem birgðahald er orðið sjaldgæfara. Stafræn þróun hefur kallað fram veikleika í samfélaginu til dæmis ef langvarandi rafmagnsleysi á sér stað. Hvað varðar þessar hættur geta einstaklingar lítið gert hver fyrir sig, því að ekki er æskilegt að hver einasti baðherbergisskápur breytist í apótek eða peningar verði geymdir undirkoddanum. Þrátt fyrir þetta er ég sannfærð um að flestöllum í Svíþjóð muni farnast vel þó að hættuástand skapist.

Við treystum á félagslega samheldni bæði hvað varðar að veita og þiggja hjálp. Við samnýtum aðstoð því að samstarf innan og milli hópa gerir okkur sterkari. Jafnvel þótt hættuástand skapist er sjálfgefið að fyrirbyggja verður fyrrgreindar aðstæður eins og hægt er og á sem skynsamlegastan hátt. Það felst ákveðin þversögn í því að þegar við göngum í gegnum mjög krefjandi tíma þá dregur það fram það besta í mannlegu eðli okkar. Sjálfboðaliðar og félagasamtök gegna mikilvægu hlutverki. Þar má nefna tengslanet, rótgróna samvinnu, þekkingu og samkennd gagnvart hvert öðru sem og samfélagslega þátttöku sem skiptir öllu máli þegar á reynir. Þrátt fyrir þróun samfélagsins, forgangsröðun áhættuþátta og hvað eina sem ógnar og þarf að ræða, er ég þess fullviss að við sem samfélag getum tekist á við erfiða tíma þegar á reynir.

Forsendurnar eru nýjar, en viðbrögð okkar við hættuástandi eru þau sömu og fyrr. Hugtakið Keep calm and carry on, er jafnviðeigandi núna og fyrir 80 árum.

Vilborg Eiríksdóttir

þýddi bréfið úr sænsku

 

Norræna bréfið er birt af Norrænu kvennasamtökunum, NKF (Nordens Kvinneforbund), ár hvert á  degi Norðurlandanna. Kvenfélagasambönd innan NKF skipta með sér að fá einstaklinga til að skrifa bréfin. Þau eru síðan birt í tímaritum samtakanna í hverju landi og í fjölmiðlum landanna á degi Norðurlandanna.

Að þessu sinni kemur bréfið frá Svíþjóð og það er Misse Wester, prófessor við Háskólann í Lundi sem skrifar bréfið. Hún hóf námsferil sinn árið 1991 þegar hún hóf nám við Háskólann í Stokkhólmi. Hún fór eftir það í doktorsnám við Háskólann í Örebro, þar sem hún tók þátt í þverfaglegum rannsóknarhópi ernefndist: Fólk - tækni - umhverfi. Misse útskrifaðist 2004 með doktorsgráðu í sálfræði og heiti ritgerðar hennar var: Ertu að tala við mig? Umræða um hættur með tilliti til mismunandi þjóðfélagshópa. Rauði þráðurinn í rannsókn hennar er að rannsaka hvernig við hugsum og bregðumst við þegar hættur steðja að. Eftir útskrift starfaði hún meðal annars hjá Konunglega tækniháskólanum, KTH (Kungliga Tekniska Högskolan), og Varnarmálastofnun, FOI(Försvarets forskningsinstitut), en er nú prófessor við Háskólann í Lundi, á sviði viðbragðsáætlana og samfélagsöryggis.

Kvenfélagasamband Íslands

Hallveigarstöðum  - Túngötu 14  - 101 Reykjavík
552 7430 
kvenfelag@kvenfelag.is

© 2017 - 2024 Kvenfélagasamband Íslands