Skráningarfrestur á Sumarþing NKF framlengdur til 30. apríl 2020 - Covid-19

Í tilefni aðstæðna vegna heimsfaraldrar Covid-19 veirunnar hefur fresturinn til skráninga á Norræna sumarþingið í júní verið framlengdur til 30. april 2020.

Við munum að sjálfsögðu fylgjast vel með þróun mála og staðan  metin aftur er nær dregur.

Það er því ekki nauðsynlegt fyrir ykkur að taka ákvörðun núna strax um skráningu á þingið.  Vonandi gengur þetta hratt yfir og við getum hist saman allar hressar og kátar á Norrænu sumarþingi í júní nk.

Við viljum í leiðinni hvetja ykkur að því að gæta að félagskonum sem eru í áhættuhóp vegna Covid-19 og hvetjum ykkur allar til að fara í eftir leiðbeiningum Almannavarna og Landlæknis sem eru uppfærðar reglulega.  

Vinsamlega komið þessum skilaboðum til ykkar félagskvenna. Þannig styðjum við hvor aðra og samfélagið til að komast í gegnum þennan faraldur.

Sjá hér að neðan sem tekið er af síðu Landlæknis í dag 12.mars 2020

Hverjir eru í mestri hættu á að smitast af COVID-19?
Nánir aðstandendur einstaklinga sem hafa veikst af COVID-19 eru í mestri hættu á að smitast sjálfir. Einstaklingar sem í starfi sínu eða félagslífi umgangast náið mikinn fjölda einstaklinga eru einnig í meiri smithættu en þeir sem umgangast fáa aðra. Handhreinsun og almennt hreinlæti eru mikilvægasta vörn gegn smiti.

 

Hverjir eru í mestri hættu á að fá alvarleg einkenni?
Líkur á alvarlegum sjúkdómi hækka með hækkandi aldri, sérstaklega eftir 50 ára aldur. Einstaklingar með ákveðin undirliggjandi vandamál eru einnig í aukinni hættu á alvarlegri sýkingu ef þeir smitast af COVID-19 sjúkdómi. Ekki er vitað nákvæmlega hversu mikið aukin hættan er ef þessi vandamál eru til staðar, en þegar borin eru saman væg og alvarleg tilfelli er greinilegt að ákveðin vandamál voru til staðar hjá mun fleirum með alvarlegan sjúkdóm en vægan sjúkdóm. Þessi vandamál eru: hár blóðþrýstingur/hjartasjúkdómar, sykursýki, langvinn lungnateppa, langvinn nýrnabilun og krabbamein. Sjá : https://www.landlaeknir.is/um-embaettid/greinar/grein/item38911/Spurningar-og-svor-vardandi-koronaveiruna-

Ráðgjöf vegna Covid – 19 og mannamóta

Ekki er samkomubann í gildi á Íslandi en ekki er útilokað að gripið verði til slíkra aðgerða meðan unnið er að því að stemma stigu við útbreiðslu veirunnar hér á landi. Því er eðlilegt að skipuleggjendur fjölmennra viðburða séu uggandi yfir stöðunni. Meðan faraldur geisar þarf ávallt að meta hvort rétt sé að halda viðburð eða hvort betra sé að fresta tilteknum viðburði þar til faraldur er genginn yfir.

Fyrir skipuleggjendur

Meðan ekkert samkomubann er í gildi er mikilvægt fyrir skipuleggjendur að gæta vel að smitvörnum á viðburðum. Nauðsynlegt er að gestir hafi greiðan aðgang að heitu vatni og sápu, handspritti og einnota þurrkum.
Einnig er brýnt að skipuleggjendur taki mið af þeim hópi sem mun sækja viðburðinn. Vitað er að eldri borgarar og þeir sem glíma við undirliggjandi sjúkdóma (t.d. sykursýki, hjarta- og æðasjúkdóma, langvinna lungnateppu, langvinna nýrnabilun og krabbamein) eru í mestri hættu með að fá alvarleg einkenni COVID-19.

Skipuleggjendur verða jafnframt að brýna fyrir þátttakendum að þeir sem eiga að vera í sóttkví eftir að hafa orðið útsettir fyrir smit eiga ekki að mæta á viðburðinn.
Þar sem ekki hefur verið sett á samkomubann þá er það á ábyrgð skipuleggjenda viðburða að taka upplýsta ákvörðun um framhaldið. Ef grunur leikur á að ekki verði hægt að tryggja öryggi einstaklinga sem eru í áhættuhópi eða að erfitt verði að tryggja gott aðgengi að hreinlætisaðstöðu, handspritti o.þ.h. er ráðlagt að taka til skoðunar hvort halda skuli viðburðinn.

Fyrir þátttakendur

Áður en ákveðið er að halda viðburð þarf hver og einn að meta stöðu sína vel. Almennt eigum við ekki að vera í mikilli nálægð við aðra þegar við finnum fyrir flensulíkum einkennum. Sérstaklega er þetta mikilvægt fyrir þá sem annað hvort hafa verið á skilgreindum hættusvæðum eða verið í tengslum við einstaklinga með staðfest eða grunað smit. Þessir aðilar ættu að forðast samneyti við aðra einstaklinga og vera í sóttkví.

Á fjölmennum viðburði er einkar mikilvægt að huga vel að persónulegu hreinlæti; þvo hendur reglulega, nota handspritt þegar þörf krefur og hnerra eða hósta í einnnota þurrku eða í olnbogabótina.

Sjá: https://www.landlaeknir.is/um-embaettid/frettir/frett/item39672/Radgjof-vegna-COVID-19-og-mannamota-

 

Kærleikskveðja,

Gildin KI

Kvenfélagasamband Íslands

Hallveigarstöðum  - Túngötu 14  - 101 Reykjavík
552 7430 
kvenfelag@kvenfelag.is

© 2017 - 2022 Kvenfélagasamband Íslands