Fyrsta tölublað Húsfreyjunnar 2020 er komið út og hefur verið sent til áskrifenda. Húsfreyjan er að þessu sinni tileinkuð 90 ára afmæli Kvenfélagasambands Íslands (KÍ). En sambandið var stofnað þann 1. febrúar 1930. Forseti Íslands Guðni Th. Jóhannesson sendir afmæliskveðju í blaðinu til Kvenfélagasambandsins. Í tilefni afmælisins hittust þær konur sem gegnt hafa embætti forseta Kvenfélagasambands Íslands og eru nú lifandi, mynd þeirra er forsíðumynd þessa fyrsta tölublaðs ársins. Í blaðinu er svo að finna nánari kynning á þessum kjarnakonum og sagt frá störfum þeirra fyrir sambandið og saga sambandsins rifjuð upp. Sagt er frá heimsókn KÍ kvenna til Bessastaða þann 1. febrúar sl. í tilefni afmælisins og upphafs landssöfnunarinnar „Gjöf til allra kvenna“.
Í blaðinu er einnig að finna upprifjun á afmæli Húsfreyjunnar á sl ári og úrslitum úr Ljóðasamkeppnininni sem fram fór á síðasta ári, og birt tvö ljóð úr samkeppninni. Ásdís Sigurgestsdóttir snýr nú aftur með umsjón á Handavinnuþætti Húsfreyjunnar og gefur lesendum prjónauppskrift af Duggarapeysu, fallegum handstúkum/vettlingum og saumaverkefni sem er Ráptuðra af fínni gerðinni. Það er Húsmóðir Hallveigarstaða Ásdís Hjálmtýsdóttir sem gefur uppskriftir í Matarþættinum að þessu sinni. Þar er að finna uppskriftir semallir ættu að geta nýtt sér fyrir næstu veisluhöld. Eins og sl. ár er birt í fyrsta tölublaði ársinins Norræna bréfið og að þessu sinni er það Misse Wester prófessor við háskólann í Lundi. Í bréfinu ræðir hún um Veikleika í nútímasamfélagi sem á einstaklega vel við þessa dagana. Njótið lestursins.
Á forsíðumyndinni eru f.v. í fremri röð; Sigurlaug Viborg, Guðrún Þórðardóttir, og Stefanía María Pétursdóttir og í aftari röð, Helga Guðmundsdóttir, Drífa Hjartardóttir og Una María Óskarsdóttir.
Húsfreyjan kemur út 4x á ári og seld í áskrift og í lausasölu víða um land.