Kvenfélagasamband Íslands stofnað 1. febrúar 1930

Kvenfélagasamband Íslands (KÍ) var stofnað 1. febrúar 1930 og fagnar því 90 árum í ár.  Ómældar vinnustundir, erfið ferðalög og mikil skoðanaskipti höfðu farið fram þegar að þeim degi kom. Grunnur þess að Kvenfélagasambandið var stofnað var rík löngun kvenna til að hafa áhrif í þjóðfélaginu, saman yrðu þær sterkari til að koma þeim málum á framfæri sem þær brunnu fyrir. Menntun, heilsuvernd, hreinlæti, vinnuhagræðing á heimilum, sparnaður, fræðsla barna, ræktun jarðar, símenntun, samhjálp og margt fleira sem kvenfélagskonur vildu koma til leiða. Þessi vegferð hófst með stofnun Kvenfélags Rípuhrepps árið 1869. 

 

Ragnhildur pétursdóttir minni myndÞað sem konurnar lögðu upp með í stofnskrá sinni voru þessi atriði sem nefnd eru hér á undan. Fleiri félög voru stofnuð á næstu árum, skólar fyrir konur og námskeið í heimilisrekstri og handmennt sáu dagsins ljós, konur þjöppuðu sér saman, kenndu og leiðbeindu hver annarri. Þegar sagan er skoðuð var það Ragnhildur Pétursdóttir sem átti hvað mestan þátt í baráttunni fyrir menntun kvenna og lögbundinni húsmæðrafræðslu. Auðvitað var hún ekki ein en hún dró vagninn. Hún hlaut menntun í hússtjórnarfræðum erlendis og starfaði sem farkennari á vegum Búnaðarfélags Íslands. En á þessum árum var kennt í heimahúsum. Ragnhildur var síðar fyrsti forseti Kvenfélagasambands Íslands.

Frá landsfundi kvenna 1926 var farið með ályktun til Búnaðarfélags Íslands um þörf fyrir aukna menntun kvenna í heimilisstörfum og hússtjórn. Eftir könnun á stöðu heimilisfræðslu hér á landi var nefndarálit lagt fyrir Búnaðarþing árið 1929 sem svo aftur samþykkti að vinna að því að sett yrðu lög um húsmæðrafræðslu. Í samþykkt Búnaðarþings árið 1929 segir: „ Búnaðarþing telur nauðsynlegt að kvenfélög landsins myndi með sér fastara skipulag og meiri samvinnu um áhugamál sín en verið hefur. Telur það best fara, að stofnuð verði félagssambönd fyrir ákveðna landshluta, sem svo myndi samband fyrir allt landið“

Nefndin sem undirbjó málið fyrir Búnaðarþing var skipuð þeim Ragnhildi Pétursdóttur, Guðrúnu J. Briem og Sigurði Sigurðssyni búnaðarmálastjóra. Nefnd þessi boðaði síðan konur til stofnunar landssambands kvenfélaga dagana 21. janúar til 2. febrúar árið 1930. Áherslan var mikil á að tengja félögin um land allt, koma á fræðslu um rekstur heimilanna í þar til stofnuðum skólum og margt fleira. Jafnframt var rætt um skólaeldhús, heimilisiðnað og sölu hans, farkennslu, sýnikennslu, heimilisráðunauta og fleira. Mikil umræða var um fjármál og tengsl við Búnaðarfélagið, hvort landssambandið ætti að vera ein deild í því eða sjálfstætt samband. Fundarritari bókaði eftirfarandi eftir Ragnhildi Pétursdóttur ..“að ekki sæmi að þeir sem barist hafa fyrir sjálfstæði kvenna vilji vera öðrum háðir í þessu tilliti. Konur yrðu sjálfar að gera kröfur til Alþingis, ef þær ætluðu að gera sér vonir um að þeim yrði sinnt..“.
Búnaðarstjóri lýsti því svo yfir 1. febrúar að Kvenfélagasamband Íslands hefði verið stofnað. Konurnar á þessum tíma hafa svo sannarlega verið framsýnar og viljað hafa sjálfstæðið í fyrirrúmi. Í fyrstu lögum Kvenfélagasambands Íslands segir svo um tilgang sambandsins: „Að efla húsmæðrafræðslu og heimilisiðnað í landinu með hvatningu, fjárstyrk og eftirliti. Að koma á samvinnu milli kvenfélaga og kvenfélagasambanda. Sjái félagið sér fært, geti það tekið önnur málefni á stefnuskrá sína.“

 

Fulltrúar sem mættu á stofnfundi KÍ voru þessir: Undirbúningsnefndin; Sigurður Sigurðsson, búnaðarmálastjóri, Ragnhildur Pétursdóttir, Guðrún J. Briem. Auk fulltrúa frá; Sambandi norðlenskra kvenna, frá Sambandi austfirskra kvenna, frá Sambandi sunnlenskra kvenna, Kvenfélög Borgarfjarðar og Mýrasýslu, frá Bandalagi kvenna í Reykjavík, frá Kvenfélögum í Gullbringu - og Kjósarsýslu, frá Heimilisiðnaðarfélagi Íslands og frá Kvenfélaginu Ósk á Ísafirði.

Guðrún Þórðardóttir núverandi forseti Kvenfélagasambands Íslands tók textann saman.

Í dag eru 17 héraðssambönd aðilar að KÍ með um 154 kvenfélög um land allt. sjá hér: 

Stofnfundur KI 1febrúar 1930

Fundargerð 10. undirbúningsfundar að stofnun KÍ. Það var á þessum fundi 1. febrúar 1930 að Kvenfélagasamband Íslands var formlega stofnað. 

Stofnfundur KI 1febrúar 1930 2

Bls 2 í fundargerð stofnfundar. 

stjornKIvefmynd

Núverandi stjórn Kvenfélagasambands Íslands: er skipuð frá vinstri:

Björg Baldursdóttir, varastjórn, Þórný Jóhannsdóttir varaforseti, Þuríður Guðmundsdóttir meðstjórnandi,

Guðrún Þórðardóttir forseti, Sólveig Ólafsdóttir varastjórn, Bryndís Ásta Birgisdóttir gjaldkeri og Sólrún Guðjónsdóttir ritari. 

Kvenfélagasamband Íslands

Hallveigarstöðum  - Túngötu 14  - 101 Reykjavík
552 7430 
kvenfelag@kvenfelag.is

© 2017 - 2022 Kvenfélagasamband Íslands