Fjórða tölublað Húsfreyjunnar á 70 ára útgáfuafmælis ári er komin út.
Það er Eliza Reid forsetafrú sem er í aðalviðtali Húsfreyjunnar í þessu síðasta tölublaði ársins. Ritstjóri ræddi við hana um jafnréttismál, matarsóun og fatasóun, lífið sjálft og jólin sem koma senn.
Í blaðinu eru birt þau þrjú ljóð sem unnu 1. – 3. sætið í Ljóðasamkeppni Húsfreyjunnar og sagt frá höfundum þeirra. Kristín Ástgeirsdóttir skrifar um við hvaða konur hefur verið talað í þau 70 ár sem Húsfreyjan hefur komið út og Guðrún Hallgrímsdóttir matvælaverkfræðingur fer á skemmtilegan hátt yfir hvernig matargerð og uppskriftir haf birst í Húsfreyjunni í gegnum árin. Brynja Björk Halldórsdóttir sýnir hvernig hægt er að gera fallegar skreytingar úr því sem náttúran gefur okkur. Leiðbeiningastöð heimilanna birtir nokkrar uppskriftir af sykurlausum smákökum og Vilmundur Hansen fjallar um blómin sem algengust eru á aðventu og jólum og gefur ráð um umhirðu þeirra. Gefin er uppskrift af verðlaunasjali Dóru Líndal sem fékk fyrstu verðlaun í prjónasamkeppni á Prjónagleðinni á Blönduósi í sumar. Dagný í Hendur í höfn deilir tertuuppskriftum með lesendum. Sagt er frá jólaskeið Guðlaugar A. Magnússonar. Ásamt fjölmörgu öðru efni er matarþátturinn í umsjón Alberts Eiríkssonar á sínum stað og Steinunn Þorleifsdóttir gefur lesendum m.a. uppskrift af keðjuhekluðum vettlingum og hekluðu snjókorni í Handvinnuþættinum.
Húsfreyjan fæst í áskrift á husfreyjan.is og er seld í lausasölu víða um land.
Njótið aðventunnar!