Kvenfélagasamband Íslands ásamt fjölmörgum öðrum félagasamtökum tekur þátt í alþjóðlegu 16 daga átaki gegn kynbundnu ofbeldi sem má rekja aftur til ársins 1991. Dagsetning átaksins var valin til að tengja á táknrænan hátt kynbundið ofbeldi og mannréttindi. Þann 25. nóvember er alþjóðlegur baráttudagur gegn ofbeldi gegn konum og 10. desember er hinn alþjóðlegi mannréttindadagur. Markmið átaksins er að knýja á um afnám alls kynbundins ofbeldis. Frá 25. nóvember til 10. desember verða birtar greinar á hverjum degi í Fréttablaðinu. Staðið verður fyrir ýmsum viðburðum á meðan að átakinu stendur. millumkerin #SafeatWork og #16dagar verða notuð á samfélagsmiðlum.
Kynbundið ofbeldi er ein af verstu birtingarmyndum kynjamisréttis og fyrirfinnst í öllum samfélögum, þar á meðal á Íslandi en kynbundið ofbeldi er ofbeldi á grundvelli kyns.
Bæði konur og karlar upplifa kynbundið ofbeldi, en konur og stúlkur eru meirihluti þeirra sem verða fyrir slíku ofbeldi. Kynbundið ofbeldi lýsir sér meðal annars í nauðgun, mansali, kynferðisáreitni, ásamt annars konar líkamlegu og andlegu ofbeldi og fyrirfinnst jafnt innan heimilis sem utan.
Í ár er yfirskrift 16 daga átaksins að stöðva kynbundið ofbeldi á vinnustöðum. Umræða um kynbundið obeldi á vinnustöðum er þörf í samfélaginu ef marka má fyrstu niðurstöður úr rannsókninni Áfallasögur kvenna sem birtar voru í mars á þessu ári. Þar kemur fram að ein af hverjum þremur konum hefur orðið fyrir kynferðislegri áreitni eða ofbeldi í starfi eða námi. Þar sem að einblínt er á kynbundið ofbeldi á vinnustöðum munu stéttarfélög taka þátt í átakinu í ár.