Í tilefni af 75 ára lýðveldisafmæli Íslands bauð forsætisráðuneytið í samvinnu við Landssamband bakarameistara upp á Lýðveldisköku og var hún 75 metra löng þriggja botna mjúk súkkulaðikaka með karamellu- rjómaostakremi og marsípani. Sáu Kvenfélagskonur um að skera kökuna í hátíðargesti. Kvenfélagskonur tóku vel í að vera með í þessu skemmtilega verkefni. Hátt í 50 konur mættu, margar þeirra voru í íslenskum þjóðbúning í tilefni dagsins. Konurnar byrjuðu daginn á að hittast og hita upp í húsnæði Kvenfélagasambandsins á Hallveigarstöðum að morgni 17. júní. Til að lágmarka allt einnota plastdót, voru konurnar beðnar að mæta með sína eigin tertuspaða. Það var því flottur hópur kvenna vopnaður tertuspöðum sem gekk fylktu liði frá Hallveigarstöðum að Sóleyjargötu þar sem tertan góða beið tilbúin. Jói Fel, formaður landssambands bakarameistara byrjaði á að skera fyrstu sneiðarnar fyrir Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra og Dag B. Eggertsson borgarstjóra. Tertan rann svo ljúft niður í hátíðargesti sem nutu veðurblíðunnar þennan dag. Mikil stemming var í hópnum og varð þetta skemmtilega verkefni að yndislegri samveru þeirra kvenna sem tóku þátt.
Kvenfélagasamband Íslands þakkar þeim konum sem tóku þátt í verkefninu kærlega fyrir að gefa tíma sinn í þetta verkefni.
Fleiri myndir frá deginum má finna inn á fésbókarsíðu Kvenfélagasambandsins. https://www.facebook.com/KvenfelagasambandIslands/