Kvenfélagskonur á Vestfjörðum afhentu nýtt ómtæki á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða

  1.  ágúst sl. afhenti Kvenfélagið Sunna á Vestfjörðum formlega nýtt ómtæki á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða en konurnar í félaginu, ásamt öðrum, hafa safnað fyrir tækinu í meira en ár.

Tækið nýtist sem dæmi hjartalæknum, ómskoðun ófrískra kvenna og fleira. Ef grunur var á utanlegs fóstri áður en þetta tæki kom þurfti að senda konu með sjúkraflugi suður og kostar slík ferð um 500 þúsund, en með þessu tæki er hægt að sjá það á staðnum.

Þessi vegferð hófst á fundi Kvenfélagsins Sunnu fyrir rúmu ári síðan í Litlabæ í Ísafjarðardjúpi. Þá var tekin ákvörðun um að safna fyrir ómtækinu fyrir sjúkrahúsið. Af stað var haldið og fengu þær einstaklinga,  fyrirtæki og stofnanir í lið með sér sem hjálpuðu til við söfnunina ásamt;  Kvenfélaginu Von á Þingeyri, Kvenfélagi Mýrarhrepps, Sunnu í Ísafjarðardjúpi, Brynju á Flateyri, Ársól á Suðureyri, Hvöt í Hnífsdal, Hlíf á Ísafirði og Kvenfélaginu Brautin í Bolungarvík ásamt Kiwanisklúbbnum, stöllunum í Stöndum saman Vestfirðir og Úlfssjóði. Allir þessir aðilar tóku þátt af miklum myndarskap.

 Álfhildur formaður Kvenfélagsins Sunnu segist vera virkilega stolt af þessu verkefni sem er það stærsta sem þær hafa ráðist í. Áður höfðu þær sem dæmi gefið lyfjadælu til hjúkrunarheimilisins Eyri og síðan gefið hjartastuðtæki til þriggja ferðamannastaða í djúpinu. Undanfarin ár hefur félagið þeirra í Ísafjarðardjúpi stækkað og eru 30 konur í félaginu skráðar núna og segjast þær hvergi nærri hættar og bíði spenntar eftir því sem þeim dettur næst í hug.

Við afhendinguna sagði  Gylfi Ólafsson forstjóri Heilbrigðisstofnunnar Vestfjarða: „Án þessa stuðnings væri erfitt að tækjabúa stofnunina en þetta sýnir líka hvað stofnun eins og þessi er mikilvæg í hugum fólks og hvað við þurfum að vanda okkur vel sem vinnum hér. Við þurfum að tryggja það að þjónusta okkar sé í samræmi við þær væntingar sem gerðar eru til stofnunarinnar.“ Gylfi lýsti einnig yfir miklu þakklæti fyrir hönd stofnunarinnar fyrir það óeigingjarna starf sem kvenfélagskonur lögðu í þessa söfnun.  

Svo sannarlega glæsilegt verkefni hjá kvenfélagskonum á Vestfjörðum.  

 

sunnaVestfjordumomtaeki

Stoltar kvenfélagskonur ásamt læknum á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða

Alfhildurvestfjordum

Álfhildur formaður Kvenfélags Sunnu

 

 Halldór Sveinbjörnsson tók myndirnar.

 

 

 

Kvenfélagasamband Íslands

Hallveigarstöðum  - Túngötu 14  - 101 Reykjavík
552 7430 
kvenfelag@kvenfelag.is

© 2017 - 2022 Kvenfélagasamband Íslands