Norrænt bréf kvenfélaganna birt á degi Norðurlandanna 23. mars

Isabel Nybo small

Norræna bréfið í ár skrifar Iselin Nybø sem er norskur lögfræðingur og stjórnmálamaður.

Nordens kvinneförbund, NKF, er samband kvenfélaga á Norðurlöndum. Árlega fær eitt af aðildarsamtökum landanna, aðila í sínu heimalandi til að skrifa s.k. „Norrænt bréf“ um málefni sem er efst á baugi og varðar félagsheildina.

Norræna bréfið birtist í miðlum aðildarsamtakanna í tengslum við dag norðurlandanna, 23. mars.

Bréfið birtist í 1. tbl. Húsfreyjunar 2018

Sjá Norræna bréfið hér:

Konur í heimi breytinga

Samfélagið breytist hratt og erfitt er að spá fyrir um hvaða störf verða mikilvægust á morgun. Það er vitað mál að tækni mun gegna þar mikilvægu hlutverki. Tækniframfarir munu skapa nýjar víddir og tækifæri fyrir þá sem sjá og skynja möguleikana. Menntun og þekking hefur aldrei verið mikilvægari og allir ættu að hafa sömu tækifæri að taka þátt. Í dag eru það fyrst og fremst karlmenn sem mennta sig til að vinna í  tæknigeirum.

Menntun er eitt það mikilvægasta sem samfélagið getur veitt. Hver svo sem spurningin er, verður svarið þekking. Með þekkingu munum við að leysa loftslagsvandamál og það er með þekkingu sem við munum leysa framtíðaráskoranir velferðasamfélagsins. Atvinnulífið verður sífellt tæknivæddara og krefst stöðugt meiri þekkingar, jafnvel fyrir hefðbundin störf.

Störf sem áður voru unnin í höndunum eru og verða  leyst með þekkingu í forritun vélmenna sem leysa af hólmi eldri starfsaðferðir. Þekking er einfaldlega afgerandi þáttur fyrir þróun samfélagsins.
Fyrir stúlkur sem alast upp í Noregi og á hinum Norðurlöndunum er menntun eðlilegur hluti daglegs lífs. Skólaganga er lögboðin, framhaldsmenntun er gjaldfrjáls og er raunverulegur valkostur fyrir alla. Menntun ætti að vera sjálfsögð um heim allan, en því miður er það ekki raunin. Enn þann dag í dag eru það færri stelpur en strákar hljóta menntun á heimsvísu. Það eru fátækustu stelpurnar sem koma verst út því þær hafa minnstan möguleika á því að hefja skólagöngu.

Ef þessar stelpur hefðu fengið menntun hefði það haft röð jákvæðra áhrifa í för með sér. Það hefði veitt betri heilsu og velferð, dregið úr fátækt og úr fólksfjölgun.  NORAD (Þróunarstofnun, innskot þýðanda) skrifar á vefsíðu sinni að land með menntuðum konum auki framleiðni sína sem leiðir til hagvaxtar.

Til þess að konur um heim allan nái  jafnrétti og hafi stjórn á eigin lífi, verður að setja menntun þeirra á forgangslista á alþjóðavettvangi. Þó svo að menntun stúlkna í fátækari hluta heimsins aukist frá degi til dags er mikilvægt að halda áfram metnaðarfullu starfi. Það má ekki láta staðar numið við grunnskólanám. Framhaldsmenntun ætti að vera möguleiki fyrir allar stúlkur vegna þess að framtíðin krefst meiri menntunnar. Áður fyrr var nauðsynlegt að læra að lesa og reikna til að fullorðnast. Í dag þarf einnig að hafa grunntækniþekkingu, það mun koma heiminum til góða.

Þó að stelpur séu í meirihluta þeirra sem ganga menntaveginn  í Noregi, stöndum við frammi fyrir áskorunum sem eru mikilvægar fyrir möguleika þeirra í framtíðinni. Meðal annars vantar fleiri stelpur í grunnmenntun sem er mikilvæg fyrir  samfélagið og atvinnulífið í dag og kemur til með að verða mun mikilvægari á morgun. Þetta er lýðræðisleg áskorun af því að í dag er ekki jafnvægi kynja hvað varðar menntun og hluta atvinnulífsins sem mótar framtíð samfélagsins. Um 25 prósent þeirra sem hefja nám í upplýsinga- og margmiðlunartækni (IKT-studier) í Noregi eru konur. Samt sem áður er aðeins 1%  af frumkvöðlum í þeim geira konur.

Ójafnvægi er til staðar þrátt fyrir að konur á Norðurlöndum séu meðal þeirra bestu í heiminum að nota stafræna tækni við lausn viðfangsefna. Við verðum að spyrja okkur hvaða afleiðingar það hefur í för með sér ef konur eiga ekki fulltrúa í iðngrein sem kemur til með að hafa afgerandi áhrif á samfélagsþróunina.

Allir þurfa að kunna eitthvað um tækni í dag til að takast á við verkefni daglegs lífs. Við erum með litlar tölvur í formi snjallsíma í vasanum alla daga. Það er erfitt að ímynda sér hvernig lífið var fyrir tíma internetsins. Í framtíðinni verðum við að sjá til þess að börnin okkar - þar á meðal stelpurnar –  læri að meðhöndla tækni á öruggan hátt. Sem flestir verða að taka þátt í mótun stafræns umhverfis í Noregi. Auka  þarf umfang upplýsinga- og margmiðlunartækni í skólum og í rannsóknum. Á þessum breytingartímum verður hæfi og hæfni að skiptast milli kvenna og karla. Það eru konur sem bera skarðan hlut frá borði ef það næst ekki.

Að hafa menntun á sviði upplýsingatækni gefur möguleika á því að hafa áhrif á þróun samfélagsins og heimsins alls. Bæði konur og karlar verða að hafa getu til að taka þátt í þessari þróun og átta sig á forsendum sem liggja þar að baki.

Ef lausnir eiga að koma öllum til gagns, verða bæði konur og karlar að koma að þróun þeirra. 
Í síbreytilegum heimi þarf menntun og þekking að vera á forgangslista hvar sem er í heiminum. 

Þýtt og staðfært: VE

Iselin Nybø er norskur lögfræðingur og stjórnmálamaður. Árin 2013-17 var Nybø þingmaður Venstre, fyrir  Rogaland. Hún var fyrsti varaformaður kirkju-, menntunar- og rannsóknarnefndar þingsins. Áður var hún í sveitastjórn í Randaberg og í bæjarstjórn Stafangurs. Sem kjörinn fulltrúi hefur hún unnið að mennta- og uppeldismálum. Nybø lauk lögfræði frá Háskólanum í Bergen árið 2006 og starfaði við það þar til hún var kosin á þing 2013. Hún snýr aftur til lögfræðistarfa í janúar 2018.      

Nordens kvinneförbund, NKF, stofnað árið 1920 hefur í dag um 67.500 félaga innan sinna raða á Norðurlöndum, þar af um 4900 á Íslandi. Stjórn NKF mynda formenn landssambanda aðildarfélaganna. Guðrún Þórðardóttir forseti Kvenfélagasambands Íslands tók við formennsku NKF á Norræna þinginu í Vestmannaeyjum í júní sl. Formennska KÍ varir næstu 4 ár, 2016-2020. KÍ heldur þá skrifstofu fyrir samtökin og sér um fjármálin.

Norræn þing kvenfélaga eru haldin á hverju sumri, til skiptis á Norðurlöndunum. Markmiðið með þingunum er að efla kynni og miðla reynslu meðal kvenfélgskvenna á norðurlöndunum sem sinna mikilvægum félagslegum þáttum, hvert í sínu landi. Þar eru einnig teknar ákvarðanir fyrir félagsheildina. Allar kvenfélagskonur eru velkomnar að sækja þingin og tekur Kvenfélagasamband Íslands við þátttöku beiðnum á þingin. Samhliða þingum eru haldnir stjórnarfundi NKF.

Norræna þingið 201 verður haldið í Mariehamn á Álandseyjum 17 – 18. ágúst í sumar.

Kvenfélagasamband Íslands

Hallveigarstöðum  - Túngötu 14  - 101 Reykjavík
552 7430 
kvenfelag@kvenfelag.is

© 2017 - 2022 Kvenfélagasamband Íslands