Safnað fyrir fótknúnum vatnsáveitudælum til bændafólks í Malavi

Formannaráðsfundurinn samþykkti að KÍ myndi opna söfnunarreikning fyrir eitt af þeim verkefnum sem voru kynnt á heimsþingi Alþjóðasamtaka dreifbýliskvenna, ACWW, og fram fór á Englandi sl. haust. Verkefnið lítur að því að styrkja bændakonur/fjölskyldur í Malavi til að verða sjálfbær í að rækta matvæli með áveitum á svæðum þar sem áður var ræktað tóbak.

Á síðustu 10 árum hafa stór landsvæði í Malaví verið tekin undir tóbaksframleiðslu og að sama skapi hefur það land sem er til að rækta matvæli minnkað. Um 50% af útflutningstekjum landsins koma frá tóbaksframleiðslu. Alþjóðleg tóbaksfyrirtæki nýta sér það og halda smærri bændum í ævilangri ánauð með því að greiða þeim lítið fyrir framleiðsluna svo þeir komast varla af og geta ekki keypt þann hlífðarfatnað sem þarf. Níkótínið nær inn í líkama fólksins, barna sem fullorðinna, í gegnum húðina þegar tóbakslaufunum er safnað saman. Hættan er meiri þegar rignir og þegar ekki notaður tilhlýðilegur hlífðarfatnaður til varnar og fólkið er oft ekki meðvitað um áhættuna sem það hefur á heilsu þess. Matur og næring er sérstakt áhyggjuefni í landinu, einkum er varðar börn og unglinga. Víða í landinu lifa yfir 70% íbúa undir fátæktarmörkum sem hefur þau áhrif að börn þess eru tekin úr skóla, fólk selur eigur sínar og matarskammtar minnka. Bændur á svæðinu eiga erfitt með aðra ræktun vegna mikilla þurrka og nauðsynlegt að finna leiðir til matvælaræktunar til að bæta fæðuöryggi í landinu.

Keyptar verða fótdrifnar dælur til að dæla vatni inn á svæðin úr vatnsbólum á nærliggjandi stöðum með það að markmiði að fjölskyldurnar geti með því rekið sjálfbær bú og þurfi ekki aðstoð í framtíðinni. Á afskekktum svæðum er hvorki rafmagn né olía fáanleg og eru þessar fótknúnu dælur mikil hjálp fyrir bændurna til að skipta yfir í framleiðslu matvæla í stað tóbaks.
íknarsamtökin Daughters of Mary Immaculatur and Collaborators, DMI, með systur Viji í fararbroddi stýra verkefninu og sjá um kostnað við að bora fyrir vatni þar sem þess er þörf. Hver dæla kostar um 300 bandaríkjadollara og áætlað er að hvert þorp þurfi á 15 dælum að halda. Hafist verður handa í þorpinu Mangochi og verður verkefnið svo víkkað út til fleiri þorpa eftir því sem safnast fyrir fleiri dælum til að ná til sem flestra.
KÍ hefur góða reynslu af samstarfi við DMI og systur Viji en hún var umsjónarmaður með Geitaverkefninu sem kvenfélögin á Íslandi og KÍ styrktu um árabil.

Reikningsnúmerið söfnunarinnar er: 0567 – 26 - 320 kt. 7101696759 kvittun má senda á This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. Það er von Kvenfélagasambandsins að kvenfélögin á Íslandi sem og einstaklingar bregðist vel við og stuðningur frá Íslandi dugi fyrir vatnsdælum fyrir a.m.k..eitt þorp í Malaví. Gjafabréf fást á skrifstofu KÍ. 
Hægt er að fræðast um verkefni ACWW á heimasíðunni: www.acww.org.uk

Kvenfélagasamband Íslands

Hallveigarstöðum  - Túngötu 14  - 101 Reykjavík
552 7430 
kvenfelag@kvenfelag.is

© 2017 - 2022 Kvenfélagasamband Íslands