110 norrænar konur tóku þátt í Norrænu sumarþingi kvenfélaga innan Nordens Kvinnoförbund, NKF, sem haldið var í Vestmannaeyjum dagana 17. -19. júní sl. Eyjarnar allar og hafið umhverfis voru vettvangur fundarins en hefðbundin fundastörf og fyrirlestrar fóru fram í AKÓGES salnum.
Á þinginu tók Guðrún Þórðardóttir forseti KÍ við formennsku í Nordens Kvinnoförbund, NKF, til næstu fjögurra ára.
Fundargestir komu til Eyja í sól og blíðu og var sigling umhverfis Eyjarnar áhrifamikil fyrir alla þátttakendurna. Líknarkonur í Vestmannaeyjum höfðu veg og vanda að skipulagningu og framkvæmd í heimabyggð og buðu þær þingfulltrúum m.a. í kvöldmat í Líknarhúsinu.
Fjölmargir áhugaverðir fyrirlestrar, tengdir þema þingsins um ”Lifað í sátt við náttúruna” voru á dagskrá þingsins og ályktað var um aðstæður fæðandi kvenna á landsbyggðinni.
Guðbjörg Ósk Jónsdóttir fyrrverandi formaður Líknar flutti erindi um það þegar hún flutti með fjölskyldu sína, fyrirvaralust, frá Eyjum þegar eldgos hófst í Heymaey 23. janúar 1973 og sagði frá tímunum meðan fjölskyldan flutti milli staða og bjó m.a. í hjólhýsi hluta þess tíma sem hún dvaldi uppi á landi.
Sigrún Inga Sigurgeirsdóttir Líknarkona og félagsmálafrömuður flutti erindi Helgu Hallbergsdóttur menningamiðlara og safnstjóra og Hrefnu Valdísar Guðmundsdóttur þjóðfræðingsum líf sex Eyjakvenna og baráttu þeirra og náina samvinnu við náttúruna.
Kristín Linda Jónsdóttir, sálfræðingur og ritstjóri fjallaði um jákvæðan lífsstíl sem færir styrk, sátt, heilsu og hamingju og gaf hagnýt ráð tengd efninu.
Sýnd var mynd sem Eva Káradóttir og Margrét Lilja Magnúsdóttir tóku saman um aðstæður í Vestmannaeyjum þegar Kvenfélagið Líkn var stofnað og um framlag félagsins og áhrif þess á samfélagið.
Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir framkvæmdastjóri afmælisnefndar 100 ára kosningaréttarafmælis kvenna og fyrrv. þingforseti, ráðherra og þingmaður sagði í máli og myndum frá hvernig kosningaréttarafmælis kvenna á Íslandi var minnst árið 2015.
Norrænt þing kvenfélga haldið í Vestmannaeyjum 17. – 19. júní ályktar eftirfarandi:
Fæðingatíðni fer lækkandi á Norðurlöndunum, þar af leiðir að öldruðum fjölgar svo að ójafnvægi í aldursdreifingu eykst. Margir þættir spila inní þessa þróun, s.s. tekjuóöryggi foreldra og fáar fæðingadeildir, sérlega í hinum dreifðari byggðum.
Til að sporna við þessari óheilla þróun telur sumarfundur NKF að aðstæður fæðandi kvenna þurfi að bæta og jafnframt að viðhalda gæðum þjónustunnar víða í hinum dreifðari byggðum og þar sem náttúruöflin geta verið óvægin á norðurlöndunum. Að lifa í sátt við náttúruna snýst m.a. um að viðhalda byggð um land allt..
Það er óásættanlegt að konur þurfi að dvelja langdvölum fjarri heimilum sínum meðan þær bíða fæðingar eða séu sendar milli sjúkrastofnanna, þannig að börn þeirra fæðist jafnvel í misjöfnum veðrum úti á þjóðvegum. Slíkt er bæði áhættusamt og óöruggt fyrir konur og ófædd börn þeirra.
Norræn þing kvenfélaga eru haldin á hverju sumri, til skiptis á norðurlöndunum og skiptast kvenfélagasambönd landanna um að framkvæmd og skipulagningu þinganna. Markmiðið með þingunum er að efla kynni og miðla reynslu meðal kvenfélagskvenna á norðurlöndunum auk þess að taka ákvarðanir fyrir félagsheildina. Allar kvenfélagskonur eru velkomnar að sækja þingin sem auglýst eru innan kvenfélaganna og hjá Kvenfélagasambandí Íslands sem heldur utanum um skráningar til þáttöku á þingin. Samhliða þingunum eru haldnir stjórnarfundir í NKF.