Formannafundur Kvenfélagasambands Íslands, KÍ, var haldinn að Hallveigarstöðum laugardaginn 22. nóvember sl.
Formannaráð fer með æðsta vald um málefni KÍ milli landsþinga KÍ sem haldin eru á þriggja ára fresti. Á fundinn mættu formenn héraðssambanda KÍ, stjórn og starfsfólk KÍ
Yfirskrift fundarins var: Konur - 100 ára kosningaréttarafmæli – Spítalinn okkar.
Meðal þess sem var á dagskrá fundarins var:
- Starfssemi KÍ, héraðssambandanna og kvenfélaganna
- Landsþing KÍ á Selfossi 2015
- Fjárhagsstaða KÍ
- 100 ára kosningaafmæli kosningaréttar kvenna
- Bygging nýs Landspítala
Eftirfarandi ályktanir voru samþykktar á fundinum:
ÁSKORUN TIL STJÓRNVALDA
Formannaráðsfundur Kvenfélagasambands Íslands (KÍ),haldinn 22.
nóvember 2014 í Kvennaheimilinu Hallveigarstöðum skorar á Alþingi og ríkisvaldið að veita Kvenfélagasambandi Ísland fjárstyrk til að sambandið geti haldið starfseminni sinni áfram gangandi.
Frá upphafi hefur Kvenfélagasambambandið þurft að leita á náðir fjárlaganefndar Alþingis með beiðni um rekstrarstyrk, en félagsgjöld duga ekki til rekstrar.
Árið 2012 féll framlag til KÍ niður í kr. 1.500.000, en hafði árið 2010 verið kr. 8.000.000 og árið 2011 kr. 6.000.000
Engin fjárveiting fékkst til rekstrar Leiðbeiningarstöðvar heimilanna sem KÍ rekur endurgjaldslaust fyrir alla landsmenn sem geta hringt í gjaldfrjálst númer eða haft samband í tölvupósti.
Árið 2013 ákvað fjárlaganefnd að veita KÍ 5.000.000 króna í styrk, en í ár 2014 hefur engin fjárveiting fengist til rekstrar.
KÍ hefur óskað eftir fastri fjárveitingu og bent á að sambærileg samtök fá fasta fjárveitingu frá ríkisvaldinu, eins og t.d. UMFÍ, Bridssamband ísland Skáksamband Íslands, Glímusamband Íslands, Bandalag Íslenskra skáta, Neytendasamtökin, Kvennaathvarfið, Stigamót og fl.
Ef fram heldur sem horfir þarf stjórn KÍ að loka skrifstofu sinni og Leiðbeiningarstöðvar heimilanna á Hallveigarstöðum um næstu áramót.
Kvenfélögin starfa um allt land og sinna mikilvægu mannúðar og líknarstarfi til hagsbóta fyrir fólk og samfélög.
Það er einlæg von formannaráðsfundar KÍ að Alþingi og ríkisvaldið sjái sér fært að veita KÍ og Leiðbeiningarstöð heimilanna styrk svo sambandið geti áfram unnið að bættu samfélagi til hagsbóta fyrir landsmenn alla.
ÁSKORUN TIL REYKJAVÍKURBORGAR
Formannafundur Kvenfélagasambands Íslands haldinn 22. nóvember 2014 að Kvennaheimilinu Hallveigarstöðum við Túngötu í Reykjavík vekur athygli á að aðeins er ein myndastytta af nafngreindri konu í Reykjavík en það er höggmynd af höfði Bjargar C. Þorláksson.
Það voru konur sem söfnuðu fyrir gerð styttunnar til að minnast þess að Björg var fyrsti doktorinn úr röðum kvenna og var henni fundinn staður við háskólabygginguna Odda.
Á næsta ári verður fagnað 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna.
Af því tilefni væri við hæfi að gerð væri myndastytta af fyrsta þingmanninum úr röðum kvenna, Ingibjörgu H. Bjarnason og henni fundinn staður í nágrenni Alþingishússins.
Formannaráðsfundur Kvenfélagasambands Íslands, skorar á Reykjavíkurborg að fjármagna gerð slíkrar styttu og hefja verkið eins fljótt og verða má.
Greinargerð
Í dag má sjá þó nokkuð margar myndastyttur í Reykjavík og eru flestar þeirra af þjóðþekktum karlmönnum og nokkrar af ónafngreindum konum s.s. móðurást, þvottakonan, vatnsberinn o.s.frv. Börn í leikskólum borgarinnar koma gjarnan í miðbæjartúra og skoða stytturnar og læra nöfn þeirra sem þær eru af. Heyrst hefur að börnunum finnist þetta skrýtið að engin kona sé í nafngreinda hópnum og má með sanni segja að „bragð er að þá barnið finnur".
ÁSKORUN TIL STJÓRNVALDA
- Formannaráðsfundur Kvenfélagasambands Íslands haldinn 22.
nóvember 2014 í Kvennaheimilinu Hallveigarstöðum skorar á Alþingi og ríkisstjórn Íslands að taka hið allra fyrsta ákvörðun um fullnaðarhönnun og framkvæmdir við byggingu Landspítalans svo eyða megi þeirri óvissu sem skapast hefur í heilbrigðismálum landsins.
Greinargerð:
Sjúkrahúsin í Reykjavík voru sameinuð árið 2000 með því fyrirheiti að byggt yrði yfir sameinaða starfsemi þeirra og hafin bygging á nútímalegu háskólasjúkrahúsi. Undirbúningur þessa hefur því staðið yfir í nær 15 ár. Hönnun spítalans við Hringbraut var langt komin fyrir tveimur árum en þó liggur ennþá ekki fyrir ákvörðun um hvort ljúka skuli fullnaðarhönnun og hefja framkvæmdir. Ljóst er að þörf fyrir nýbyggingar Landspítala er orðin mjög brýn og því er mikilvægt að hraða þessum úrbótum.
Konur hafa frá upphafi lagt drjúgan skerf til bygginga á Landspítalalóðinni, síðast þegar Barnaspítalinn var byggður.
Sýnir það hversu mikilvægur samtakamáttur kvenna er og þann hug sem konur bera til starfsemi Landspítala.
Meðan ákvörðun liggur ekki fyrir um framkvæmdir við nýbyggingar Landspítalans eykst enn óvissan í heilbrigðismálum landsmanna.
Það er álit fundarins að ýmsir valkostir séu innanlands til að fjármagna þetta mikilvæga verkefni.
Kvenfélagasamband Íslands er stolt af því að vera fyrstu félagasamtökin í landinu sem gengu til liðs við samtökin „Spítalinn okkar".
KOSNINGARÉTTI KVENNA FAGNAÐ
- formannaráðsfundur Kvenfélagasambands Íslands haldinn þann
- 11.2014 í Kvennaheimilinu Hallveigarstöðum fagnar áætlunum stjórnvalda um að minnast með myndarlegum hætti 100 ára afmælis kosningaréttar kvenna. Með því er baráttu sem formæður okkar stóðu fyrir haldið í heiðri og jafnframt vakin athygli á að réttindin hafa ekki ávallt verið sjálfgefin.
Fundurinn skorar á ungt fólk að nýta kosningarétt sinn og kjörgengi og á kvenfélög sem og önnur kvennafélög að kynna og minnast þessa merka áfanga.