Konur til forystu, súpufundur í Hallveigarstöðum 27. janúar kl. 12

Konur til forystu

Kvenréttindafélag Íslands og Kvenfélagasamband Íslands bjóða upp á súpu og spjall í hádeginu á Hallveigarstöðum mánudaginn 27. janúar.

Á fundinum verður rætt um stöðu kvenna í stjórnmálum á landsbyggðinni. Gestir fundarins eru Arna Lára Jónsdóttir bæjarfulltrúi á Ísafirði, Arnbjörg Sveinsdóttir forseti bæjarstjórnar á Seyðisfirði, og Ásgerður K. Gylfadóttir bæjarstjóri Hornafjarðar.

Hlutur kvenna í íslenskum sveitarstjórnum hefur aukist jafnt og þétt síðustu áratugina. Konur eru í dag 40% kjörinna fulltrúa í sveitarstjórnum landsins, en betur má ef duga skal. Á fundinum verður rætt um reynslu kvenna í stjórnmálum í bæjarfélögum úti á landi og leiðir til að auka hlut kvenna í stjórnum sveitarfélaga.

Jafnréttisstofa hefur tekið saman tölur og skýrslur um hlutfall kynjanna í íslenskum sveitarstjórnum og á framboðslistum, og hægt er að lesa þá umfjöllun hér.

Fundurinn er fyrst og fremst haldinn af brýnni þörf en einnig í tilefni merkra tímamóta í sögu Kvenfélagasambandsins og Kvenréttindafélagsins. Degi kvenfélagskonunnar og afmæli Kvenréttindafélags Íslands. Dagur kvenfélagskonunnar er 1. febrúar, hann er stofndagur Kvenfélagasambands Íslands og var útnefndur Dagur kvenfélagskonunnar árið 2010 til að vekja athygli á veigamiklu og öflugu starfi kvenfélagskvenna í þágu samfélagsins í 140 ár. Kvenréttindafélag Íslands fagnar 107 ára afmæli sínu 27. janúar, en félagið var stofnað árið 1907 á heimili Bríetar Bjarnhéðinsdóttur. Markmið félagsins við stofnun var að starfa að því að íslenskar konur fengju fullt stjórnmálajafnrétti á við karlmenn, kosningarétt, kjörgengi svo og embættisgengi og rétt til atvinnu með sömu skilyrðum og karlmenn. 

Kvenréttindafélagið og Kvenfélagasambandið eru stuðningsaðilar átaksins Konur í forystusæti.

Verið velkomin í súpu, brauð og fróðleik milli kl. 12 og 13 á Hallveigarstöðum.

Aðgangur og veitingar eru ókeypis.

Kvenfélagasamband Íslands

Hallveigarstöðum  - Túngötu 14  - 101 Reykjavík
552 7430 
kvenfelag@kvenfelag.is

© 2017 - 2024 Kvenfélagasamband Íslands