Fullt var út úr dyrum á morgunverðarfundi Náum áttum hópsins s.l. þriðjudag þegar fjallað var um kannabis - umfang þess og afleiðingar.
Í máli frummælenda kom fram að kannabisneysla hefur aukist verulega og að mikill markaður er fyrir kannabisefni eins og Karl Steinar Valsson orðaði það. Karl sagði að lögreglan væri að gera upptækt á viku það magn sem áður var gert upptækt á ári. Augljóst er því að framleiðsla og neysla hér á landi hefur aukist verulega og er svo mikil að ætla mætti að eitthvað af innlendri umfram framleiðslu sé ætlað til útflutnings.
Framleiðendur virðast ekki í svo miklu sambandi við söluaðila en hægt er að fá uppskeru þrisvar á ári ( ræktun tekur 90 daga) Arngrímur Gunnarsson forvarnarfulltrúi í FÁ gerði ranghugmyndir ungs fólks og þá aðallega " nýjar raddir " framhaldsskólanema að umræðuefni og sagðist skynja breytt viðhorf. Að unga fólkið hafi þær hugmyndir að kannabis sé jafnvel holt, sé lyf og að það sjálft eigi rétt á að ráða því hvort það skaði sig eða ekki. Það séu sjálfsögð mannréttindi að hafa þá lífskoðun og skaðsemin sé ekki meiri en td. af sykurneyslu eða ofurþjálfun í líkamsrækt.
Móðir kannabisfíkils lýsti uppvexti og neyslu sonar síns sem á unglingsárum fór að neyta kannabis og lýsti þeim einkennum sem hún varð vör við í byrjun neyslunnar og röksemdarfærslum unga mannsins og ranghugmyndum um skaðsemina.Undir það tóku fleiri foreldrar í umræðum í lok fundarfins. Móðirin, hún Kristín, sem var einn af frummælendum á fundinum hafði leitað til þjónustumiðstöðvarinnar/barnaverndarnefndar og þakkaði þá aðstoð sem hún fékk þar.
Þórarinn Tyrfingsson, yfirlæknir hjá SÁÁ lagði ofuráherslu á að fólk þyrfti að greina á milli kannabisneyslu og kannabisfíknar en fræðsla væri nauðsynleg til að vinna gegn þeim bábylgjum og ranghugmyndum sem uppi væru um kannabisefnið sem slíkt. Með aukinni fræðslu til foreldra um raunverulegan skaða, umfang og afleiðingar kannabisneyslu væru meiri líkur á að geta gripið fyrr inn í vandann. Með aukinni fræðslu eykst þekkingin á félagslegum, sálfræðilegu og líffræðilegum rökum gegn neyslunni og þekking eykst þá líka á þeim áhrifum sem neyslan hefur á samfélagið (geðheilsu landans).
Þórarinn sagði að foreldrar væru „sterkasti faktorinn“ í forvörnum og að foreldrar þyrftu áskorun um að kynna sér vel skaðsemi kannabisreykinga svo þeir hafi haldbær rök gegn þeim boðskap að saklaust sé að reykja kannabis og að efnið sé saklaust og nánast náttúruafurð með lækningamátt. En það er neysluformið sem skiptir miklu máli. Þórarinn sagði að kannabisfíkn væri skilgreindur sjúkdómur og að neyslan væri ekki einkamál fíkilsins heldur varðar hún okkur öll. Þegar einstaklingur er greindur fíkill þá er ljóst að heilinn hefur breyst og skaðast.
Þórarinn staðhæfði að ef hægt væri að koma réttum skilaboðum um skaðsemi kannabisneyslunnar út í samfélagið myndi draga úr neyslunni. Skaðsemin á heilann væri óumdeilanleg af kannabisreykingum og að ungu fólki stafaði mest hætta af þeim.
Nánar á:
VIKA 43. Nánar á www.vvv.is