Beinverndardagurinn 20. október 2008

20. október 2008 heldur Beinvernd upp á alþjóðlegan beinverndardag í 10. sinn. Að þessu sinni er minnt á nauðsyn þess að „tala fyrir beinheilsu“ og beina athygli að því að enn er þörf á breytingum í stefnumótun hvað varðar beinþynningu. Þessi áhersla er ekki aðeins „ákall um aðgerðir“ til stjórnvalda og stefnumótenda heilbrigðismála“ – heldur hvatning til fólks um að „standa upprétt“ og verða ekki fórnarlömb beinþynningar.En hvað er beinþynning? Beinþynning er sjúkdómur í beinum sem rýrir vefi beinanna og minnkar massa þeirra og þéttni. Sjúkdómurinn veikir því beinin og eykur hættu á beinbrotum, sérstaklega í hrygg, mjöðm og framhandlegg.Beinþynning er lýðheilsuvandi sem herjar á fólk um allan heim og er talið að þriðja hver kona og fimmti hver karl brotni af hennar völdum. Beinþynningarbrot eru nú þegar ein helsta orsök þjáninga, hömlunar og dauða hjá elstu kynslóðinni og kostnaður heilbrigðiskerfa vegna þessara brota er meiri en vegna flestra annarra bráðasjúkdóma. Vandinn vex í takt við fjölgun mannkyns og reikna má með að fjöldi brota tvöfaldist eða jafnvel þrefaldist á næstu áratugum vegna þess að öldruðum fjölgar.Beinþynning hefur feikileg áhrif á einkalíf fólks og efnahag. Í Evrópu er hömlun af völdum beinþynningar meiri en vegna krabbameins ef frá er skilið lungnakrabbamein og sambærileg eða meiri en vegna margra langvinnra sjúkdóma sem ekki eru smitsjúkdómar.Beinþynningarbrot leiða af sér verulegan óbeinan og falinn kostnað. Það má nefna tapaða framleiðni á vinnumarkaðinum og tímatap vegna umönnunar fjölskyldumeðlima sem eiga við hömlun að stríða vegna beinbrota.Það er hægt að minnka hættu á beinþynningu og brotum af hennar völdum með ýmsu móti. Hornsteinar forvarna gegn beinþynningu eru reglubundin hreyfing, mataræði sem inniheldur kalk og D-vítamín, almennt hollir lífhættir og læknisskoðu til að tryggja að beinþynning greinist á fyrstu stigum. Þá getur fólk sem hefur greinst með beinþynningu fengið góða lyfjameðferð sem dregur marktækt úr hættunni á beinþynningarbrotum.Í tilefni dagsins kemur út fréttabréf Beinverndar.Stöndum upprétt og tölum fyrir beinheilsu.Beinvernd

Kvenfélagasamband Íslands

Hallveigarstöðum  - Túngötu 14  - 101 Reykjavík
552 7430 
kvenfelag@kvenfelag.is

© 2017 - 2024 Kvenfélagasamband Íslands