Vika einmanaleikans 3. - 10. október

 

 

Fylgstu með á www.vikaeinmanaleikans.is 

Verið er að vinna í uppsetningu síðunnar

 Um verkefnið: 

Vitundarvakning gegn einsemd og einmanaleika

Vika einmanaleikans 3. – 10. október 2025

Á 40. landsþingi Kvenfélagasambands Íslands (KÍ)sem haldið var á Ísafirði síðastliðið haust var einhugur um mikilvægi þess að kvenfélögin og Kvenfélagasambandið tækju höndum saman í vitundarvakningu um einmanaleika. Á landsþinginu fór fram vinnustofa þar sem 225 konur unnu saman í 22 hópum þar sem rætt var um einmanaleika og hvað kvenfélögin geta gert til að sporna gegn einsemd. 

Þessi vinna varð svo til þess að landsþingið samþykkti eftirfarandi ályktun:

„40. landsþing Kvenfélagasamband Íslands haldið á Ísafirði 11.-13. október 2024 vekur athygli á þeirri samfélagslegu vá sem stafar af vaxandi einsemd fólks. Þingið leggur áherslu á að unnið verði markvisst gegn einmanaleika og kallar stjórnvöld til ábyrgðar.“

Í kjölfarið sótti svo stjórn Kvenfélagasambandsins um styrki til að vinna að verkefninu „Vika einmanaleikans“ - Vitundarvakning gegn einsemd og einmanaleika.  Styrkir fyrir verkefnið fengust frá Félags- og húsnæðismálaráðuneytinu og úr Lýðheilsusjóði.

Á formannaráðsfundi 1. febrúar var svo skipaður stýrihópur til að halda utan um verkefnið.

Í stýrihópnum sitja: Ása Erlings (SBK), Ása Steinunn Atladóttir (KSR), Vilborg Eiríksdóttir (KSGK), Þórunn Kolbeins Matthíasdóttir (KSK).  Eva Björk Harðardóttir varaforseti KÍ er fulltrúi stjórnar í hópnum og Jenný Jóakimsdóttir starfsmaður KÍ er starfsmaður verkefnisins.

Verkefninu er ætlað að vekja athygli á vanda einmana fólks, upplýsa almenning um orsakir og afleiðingar einmanaleika, hvetja til aðgerða og opna á umræðu um einmanaleika.

Vitundarvakning verður allt árið en sérstök áhersla á opna viðburði í viku einmanaleikans. Vonast er til að verkefnið haldi áfram og vaxi og dafni á næstu árum.

Ákveðið var að „Vika einmanaleikans“ yrði dagana 3. – 10. október.  Verið er að vinna að heimasíðu fyrir verkefnið og stefnt er á að hún fari í loftið í sumarbyrjun. Á síðunni verða upplýsingar og fróðleikur og þar verður safnað saman viðburðum, uppákomum og hugmyndum sem ætlað er að draga úr einmanaleika og skapa tengsl milli fólks.

Íslensk kvenfélög hafa alla tíð verið mikilvægar stoðir í sínum samfélögum og bjóða upp á fjölbreytta viðburði sem brúa bilið milli fólks. Allt frá kaffispjalli og spilakvöldum til prjónasamkoma og þorrablóta – þessir opnu viðburðir hafa skapað vettvang fyrir samveru og tengslamyndun. Nú ætlar KÍ að stíga enn stærra skref og nýta sitt víðtæka tengslanet um land allt til að efla þessa starfsemi enn frekar. Markmiðið er að auka fjölda opinna viðburða, bæði innan og utan vébanda kvenfélaganna, og ná þannig til þeirra sem upplifa einangrun í nærumhverfi sínu.

Kvenfélögin, sem þekkja vel til í sínum heimabyggðum, eru í einstakri aðstöðu til að finna og ná til þeirra sem eru einmana. Með því að virkja fyrst hinar fjölmörgu kvenfélagskonur – sem samanlagt ná til um 4000 fjölskyldna – er lagður sterkur grunnur að víðtæku átaki. Í gegnum opna viðburði þeirra er vonast til að ná til enn stærri hóps innan samfélagsins.

Hvert og eitt kvenfélag er hvatt til að finna leiðir til að bjóða upp á opna viðburði og athafnir sem draga úr félagslegri einangrun í nærumhverfi sínu, efla félagsstarf og skapa vettvang fyrir samveru og tengslamyndun. Kvenfélög og aðrir sem vilja taka þátt í vikunni með okkur eru beðin um að senda tölvupóst á This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. til að láta vita af þeim viðburðum og uppákomum sem þau munu skipuleggja eða skrá á sérstöku formi sem verður á síðunni:  www.vikaeinmanaleikans.is

 

Stjórn KÍ hefur farið með kynningu á verkefninu á aðalfundi allra héraðssambanda sem haldnir hafa verið á árinu. Opinn netfundur var svo haldinn þann 7. maí sl. þar sem verkefnið var kynnt fyrir kvenfélagskonum auk þess sem Ragnheiður Sveinþórsdóttir formaður Kvenfélagsins Líknar í Vestmannaeyjum var með kynningu á því hvernig þær hafa hagað sínu kynningarstarfi.

Vonast er til að öll kvenfélög landsins leggi hönd á plóg í þessu mikilvæga verkefni.

 

 

Kvenfélagasamband Íslands

Hallveigarstöðum  - Túngötu 14  - 101 Reykjavík
552 7430 
kvenfelag@kvenfelag.is

© 2017 - 2024 Kvenfélagasamband Íslands