Samhljómur menningarheima í samvinnu við fjölmörg félagasamtök og einstaklinga standa fyrir friðargjörningi sem felur í sér myndun mannlegs friðarmerkis á Klambratúni miðvikudaginn 2. október næstkomandi kl. 20.00 2. október er fæðingardagur Mahatma Ghandi og jafnframt dagur Sameinuðu þjóðanna fyrir tilveru án ofbeldis (Day of Non-Violence). Sérstakt tilefni þessu sinni er að á þessum degi 2024 hefst í San José Costa Rica „Heimsgangan fyrir friði og tilveru án ofbeldis“ Þetta er í þriðja sinn sem heimsgangan er haldin. Hún mun leiða friðarboðskap um heimsálfurnar 5 og ljúka þann 5. Janúar 2025 á sama stað og hún hófst í San José, Costa Rica. Hér er slóð á vefsíðu 3ju heimsgöngunnar: https://en.theworldmarch.org/
Samskonar friðarmerki var myndað á Klambratúni fyrir 15 árum eða árið 2009. Til þátttöku í myndun þessa Mannlega friðarmerkis er boðið talsmönnum og félagsfólki fjölmargra grasrótarhópa, Lífsskoðunarfélaga, trúfélaga, friðarhópa, stéttarfélaga og annarra baráttuhópa og samtaka sem og stjórnmálaflokka. Að loknum framsögum mun Mannlega friðarmerkið vera myndað. Blys munu ekki verða seld eins og áður hefur tíðkast heldur munum við notast við glerkrukkur og sprittkerti og hvetjum við þátttakendur til að koma með glerkrukkur og sprittkerti fyrir sig, en við munum hafa eitthvað af krukkum og kertum á boðstólum endurgjaldslaust. Aðstandendur gjörningsins hvetja alla sem vilja sýna samstöðu sína með friði og tilveru án ofbeldis til þess að mæta kl.20.00, 2. október næstkomandi miðvikudagskvöld, vestan megin við Kjarvalsstaði og taka þátt í dagskrá friðarmerkisins.
Eva Björk Harðardóttir varaforseti KÍ mun flytja ávarp fyrir hönd Kvenfélagasambands Íslands.